Móbergshryggurinn

Þarna er Móbergshryggurinn eins og flestir göngumenn á Vífilsfell sjá hann. Myndin er tekin á Sléttunni af norðausturleiðinni. Hægra megin á hryggnum er hæsti hlutinn, toppurinn.

Þessa suðvesturhlið móbergshryggsins þekkja ekki margir en hún er afar falleg og fjölbreytileg. Móbergið er margbreytilegt þó svo að það sé víðast sundursprungið og brotið. Það er einkum mótun móbergsins sem er heillandi, hvernig það hefur liðast og sveigst áður en það harnaði og varð að bergi.

Inn á myndina hefur stikaða gönguleiðin upp á móbergshrygginn verið merkt. Eftir talsverða yfirlegu hefur þessi leið reynst öruggust. 

Hér sést nokkuð vel lögun móbergshryggjarins. Hann er brattur í báðar áttir en mun meiri veðrun suðvestanmegin. Þar er laus jarðvegur í hlíðinni en hinum megin eru klappir að mestu.

Eftir að hafa gengið yfir Sléttuna er komið að Móbergshryggnum. Hann er frekar auðveldur uppgöngu enda aðeins rétt um 100 m hár. Brattinn er nokkur en minni en á gönguleiðinni upp norðausturhornið. Engu að síður getur þarna verið vandfarið.
 
Móbergið getur verið hált í vætutíð. Einnig er eðli móbergsins þannig að stöðugt veðrast úr því. Þess vegna liggur víða smágerð möl oft ofan á henni sem getur gert klappirnar „hálar“ . Þar af leiðandi er betra að fara varlega, sérstaklega þar sem bratt er. Á móti kemur að mörgum finnst betra að ganga á harðri klöpp, telja að það flýti fyrir. 
 
Á efstu litlu myndinni hér til hliðar má greina tvö misgengi. Þar hefur móbergir færst til og lækkað. Í þau safnast snjór sem oft getur verið þægilegur uppgöngu en vegna hæðar er hann oft harður og erfiður yfirferðar.

 

Þegar upp á móbergshrygginn er komið sést hvernig hann er lagaður því hinum megin hallar hann til suðvesturs. Þar er landslagið hins vegar allt annað, engin slétta heldur blasir við Bláfjallahryggurinn með tindum sínum.

Á þessari mynd sést vel hvernig móbergshryggurinn „situr“ á „Sléttunni“, gamla stapanum. Við liggur að hreinlega sé hægt að skoða samskeytin.

Göngufólk á leið niður móbergsklappirnar suðaustan á hryggnum. Í fjarska sést til Þjórsárósa enda myndin tekin með miklum aðdrætti.

Horft er til toppsins undir brotnum móbergshryggnum suðveðstanmegin. Ekki er ritstjórn ljóst hvernig stendur á því að hryggurinn er allt öðru vísi sunnan megin en norðan. Hugsanlega er hinn forni gígur dalverpið sunnan megin.

Magnað útsýni er af vestuhluta Móbergshryggsins, þar sem brattast er til vesturs. Svæðið á þeim slóðum er stórfenglegt. Margvíslegt móbergið  er ráðandi, sums staðar er það laust í sér og brotið, annars staðar eru miklar hellur og björg. 

 

Vinir Vífilsfells - ritstjóri: Sigurður Sigurðarson - sigurdur.sigurdarson@simnet.is