Vélhjól valda skemmdum

 

Akstur vélknúinna ökutækja utan vega getur valdið miklum skemmdum og ítrekaður akstur veldur eðlilega enn meiri skemmdum. Þannig hefur það verið vestan undir Vífisfelli. Þar hafa vélhjólamenn leyft sér í langan tíma að búa til slóðir og leika sér í þeim.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar með sex ára millibili. Sú til vinstri var tekin í norðaustur 1. ágúst 2006 og sú til hægri í maí 2012. Báðar eru teknar nokkrun veginn á sama stað, vestan undir Vífilsfelli.

 

Aukin umferð vélhjólafólks hefur greinilega aukið við landskemmdir, breikkað hjólastíginn og er hann víða orðinn tvöfaldur. Næstu myndir eru teknar í suðvestur og á sömu tímum og nefndir voru hér fyrir ofan. Á myndinni til hægri er vélhjólaslóðinn orðinn þrefaldur.  

 

Ljóst er að óheimilt er að fara um þetta land á vélhjólum en utan við Jósefsdal er svæði þar sem hjólamenn hafa til æfinga. Það er talsvert stór og mikið notað. 

Á skilti þar stendur: „Akið aldrei utan merktra brauta“. Hins vegar segir ekki að akstur utan vega sem bannaður.

 

Göngumenn sem eiga leið um þessi svæði rekast oft á vélhjólafólk og þeir sjást einnig ofan af Vífilsfelli. Á myndinni neðst til hægri má greina akstur vélhjóla sem eru á leið vestur úr malarnáminu og á þá slóð sem myndirnar að ofan sýna.

 

Raunar er staðan sú að vélhjólafólk fer langt út yfir það land sem því er markað við svokallaða Bolaöldu, norðaustan við Vífilsfell. Á loftmyndum Samsýnar, sem finna má meðal annars á ja.is, má greina vélhjólaslóðir suður með Bláfjöllum beggja vegna og raunar allt til Hengils og að Marardal.

 

Óljóst er hvort akstur utan vega er leyfilegur eða ekki. Hægt er að benda á að akstur á slóð hljóti að vera heimill. En er slóð réttlæting á viðvarandi landskemmdum?

 

Vinir Vífilsfells - ritstjóri: Sigurður Sigurðarson - sigurdur.sigurdarson@simnet.is