Toppurinn

Myndin er tekin á toppi Vífilsfells. Raunar er þar enginn tindur þó klettar skagi þar upp. Þetta er magnaður staður og útsýnið frábært. Hægra megin er  Bláfjallahryggur og vinstra megin sést til Hellisheiðar ef grannt er skoðað.

Hér eru tvær myndir af uppgöngu á toppinn, E-leiðinni. Þarna gengur göngumaðurinn inn í litla sprungu og treður sér upp hana. Eftirleikurinn er auðveldur, leiðin er örugg en það sem meira er, hún er skemmtileg.

Eins og alltaf í fjallgöngum er það tindurinn sem heillar. Á Vífilsfelli er enginn tindur heldur er toppurinn nokkuð stórt, en tiltölulega flatur. Þar er hægt að finna skjól í flestum áttum og þegar vel viðrar er stórkostlegt þarna uppi. Útsýnið er frábært til allra átta og alveg tilvalið að taka myndavél með sér og taka myndir til minningar. 

 

Þrjár ef ekki fleiri leiðir eru á toppinn. Dálítið príl fylgir þeim öllum og þá er átt við að handstuðningur þarf er tryggri fótstöðu er náð. Myndirnar lýsa þó leiðinum hins vegar nokkuð vel.

 

Móbergið er allt stórkostlegt náttúruundur og gaman að skoða hvernig það hefur veðrast og breytist.

Hér eru myndir af F-leiðinni, hefðbundinni gönguleið á toppinn. Eins og sjá má er hún ekki erfið, efst er örlítið príl og þá er komið inn á E-leiðina og eftirleikurinn auðveldur.

E- og F- leiðir mætast á þessum slóðum. Þarna upp er síðasti áfanginn, upp kaðalinn og á toppinn. Þarna er ekki bratt en gott að hafa stuðning af kaðlinum á upp- og niðurleið en ekki þurfa allir á honum að halda.

Einstaklega fallegt útsýni af toppi Vífilsfells til vesturs, í áttina að höfuðborgarsvæðinu. Þetta er tindurinn sem flestir sjá tilsýndar enda snarbratt niður af honum að vestan. Myndin er tekin af sjálfum toppnum, en myndin hér fyrir neðan er af toppnum norðvestanverðum, þaðan sem myndin fyrir ofan var tekin ...

Toppur Vífilsfells horfir hér í norðvestur. Hann er mikið sprunginn og raunar er stór sprunga norðan við hann eins og glöggt má sjá. Þarna er þó með allt öðrum brag en suðaustanmegin en mynd af þeirri hlið er hér fyrir neðan.

Þetta er suðausturhluti toppsins. Hann er brattari og mikið hefur hrunið úr honum enda er móberg frekar ótraust. 

Hér er mynd af toppnum, svipað og hér fyrir ofan. Munurinn er hins vegar sá að myndin er tekin sunnan í Móbergshryggnum. Þar er allt með öðrum brag en á myndinni fyrir ofan. Ef grannt er skoðað sést fólk hægra megin fyrir neðan klettana.

 

Vinir Vífilsfells - ritstjóri: Sigurður Sigurðarson - sigurdur.sigurdarson@simnet.is